Sara Margrét | Erla Rut | Eydís Rose
Notalegur Félagsskapur er listrænt samstarf þriggja danslistakvenna. Hópurinn er sjálfstætt starfandi og var stofnaður í byrjun árs 2020.
Máttur dansgólfsins hefur verið þeim hugleikinn frá upphafi. Þær hafa þegar útfært rannsókn sína á þeim vettvangi í nokkrum þverfaglegum uppsetningum sem saman mynda seríuna Óður til Dansgólfs.
Erla Rut Mathiesen
Erla Rut útskrifaðist með BA gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Að námi loknu hefur hún stundað Fighting Monkey Practice og er nú orðin partur af sérvöldum hóp innan FM Practice, FM Stray Dogs. Hún hefur unnið sem dansari, kennari og sjálfstætt starfandi listakona sem flytjandi, höfundur og verkefnastjóri.
Nýleg verkefni eru The Practice Performed eftir Steinunni Ketilsdóttur, frumsýnt í Tjarnarbíó, júní 2021, Óður til Dansgólfs, sýnt á Vetrarhátíð í Reykjavík 2021, Figures in Landscape eftir Ragnar Kjartansson. Frá árinu 2018 hefur hún verið verkefnastjóri rannsóknarverkefnisins EXPRESSIONS, leitt af Steinunni Ketilsdóttur. Erla Rut ein af þremur stofnanda sjálfstæða danslistahópsins Notalegur Félagsskapur.
Erla Rut hefur kennt FM Practice við Listaháskóla Íslands, Klassíska Listdansskólann og FWD Youth Company. Erla Rut starfar sem dansþjálfari í Fimleikafélagi Stjörnunnar og sem landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands í hópfimleikum.
Eydís Rose Vilmundardóttir
Eydís útskrifaðist með BA gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Hún tók sér árspásu frá náminu til að stunda dansleikhúsnám í Englandi undir stjórn Jasmin Vardimon Company. Síðan þá hefur hún unnið sem sjálfstætt starfandi listamaður og dansari bæði hérlendis og erlendis.
Hún hefur fengið þann heiður að vinna með listamönnum á borð við Jasmin Vardimon, Athanasia Kanellopoulou, Marilena Dara, Mafalda Deville, Sögu Sigurðardóttur, Sveinbjörgu Þórhallsdóttur, Steinunni Ketils, Mattíasi Tryggva Haraldssyni og Lucie Vigneault. Eydís tilheyrir tveimur sjálfstæðum danslistahópum, Notalegum Félagsskap og RVK Dance Project.
Samhliða þessu hefur Eydís unnið við ýmis kennslustörf og -verkefni frá árinu 2013. Um þessar mundir kennir hún samtímadans í Klassíska Listdansskólanum og Listaháskóla Íslands.
Sara Margrét Ragnarsdóttir
Sara Margrét útskrifaðist með BA gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Eftir útskrift hefur hún unnið að ýmsum verkefnum í sjálfstæðu danssenunni á Íslandi og í Danmörku sem bæði flytjandi og höfundur.
Sara Margrét er ein af þremur stofnanda sjálfstæða danslistahópsins Notalegur Félagsskapur sem hefur unnið að margvíslegum verkum í seríunni Óður til Dansgólfs. Hún hefur einnig unnið í samstarfi við Marinu Dubia að verkinu the margins of my limit, Andrean Sigurgeirsson að verkinu Mass Confusion, hún var danshöfundur og aðstoðarleikstjóri söngleiksins Clueless í samstarfi við Önnu K. Einarsdóttur og flutti verkið Cloak eftir Sögu Sigurðardóttur.
Sara hefur einnig kennt börnum skapandi dans sem partur af verkefninu Dans fyrir alla sem Dansgarðurinn stendur fyrir.
Sara fluttist til Kaupmannahafnar haustið 2019 þar sem hún var framleiðandi fyrir Y Choreography festival á vegum HAUT.